Hvað er sprautumeðferð:
Þegar um minniháttar æðahnúta eða æðaslit er að ræða má meðhöndla þá með því að sprauta efni inn í æðarnar sem lokar þeim. Þetta er iðulega gert eitt og sér eða í kjölfar aðgerða með laser eða hefðbundinnar æðahnútaskurðaðgerðar. Vanalega þá >3 mán frá aðgerð.
Undirbúningur fyrir meðferð
Meðferðin: Fer fram á Skurðstofunni ehf. Notað er lyfið polidocanol (Aetoxysclerol). Mismunandi styrkleikar eru notaðir háð grófleika þeirra æða sem loka skal (0,5%, 1,0% eða 3,0%) sem froða eða í vökvaformi. Lyfið lokar æðunum sem mynda æðahnúta eða æðaslit sem breytast í örvef. Meðferðin tekur allt 15- 30 mín í hvert skipti. Ekki er hægt að deyfa. Notuð er hárfín nál sem stungið er í húðina og lyfinu sprautað beint í fæðandi æðar að æðasliti/æðahnútum með aðstoð útfjólublás ljóss. Viss óþægindi geta verið þessu samfara og þá helst sviði sem er skammvinnur.
Það magn sem hægt er að sprauta í einni meðferð er takmarkað í hvert sinn. Iðulega þarf því að endurtaka meðferðina í nokkur skipti á >3-6 vikna fresti þar til fullnægjandi árangri er náð.
Umbúðir: Settir eru teygjuvafningar á fót sem ráðlegt er að halda óhreyfðum þar til daginn eftir. Þrýstingurinn minnkar blóðflæðið um meðferðarsvæðið, bætir árangur meðferðar og minnkar líkur á fylgikvillum s.s. mari og litabreytingum í húð.
Hreyfing: Þú getur farið allra þinna ferða en forðast ber þó mikið álag fyrsta sólahringinn á eftir s.s. líkamsrækt.
Árangur: Langtímaárangur þessarar meðferðar er afar einstaklingsbundin en aldrei alger og iðulega þarf að endurtaka sprautumeðferðina. Það er þá gert á minnst 3-6 vikna fresti eins og fyrr er getið. Sjúklingar verða að hafa hæfilegar og raunhæfar væntingar um útlitslegan árangur háð þeim takmörkunum sem meðferðin býður upp á og einnig umfangi sjúkdómsins hjá hverjum og einum. Útlitslegur árangur verður aldrei alger.
Fylgikvillar: Eðlilegt er að húðin verði marin fyrst á eftir þar sem stungið var. Aukaverkanir af sprautumeðferðinni eru sjaldgæfar og eru helstar; hitatilfinning í húð, roði og kláði. Öðrum aukaverkunum svo sem ofnæmi fyrir lyfinu, æðabólgum, viðvarandi litarbreytingum, sýkingum eða drepi í húð hefur verið lýst í undantekningartilfellum.
Vinna: Ekki þarf að taka sér leyfi frá vinnu eftir meðferðina.