Undirbúningur – Kviðslit:
Eftir aðgerðina: viðgerð á kviðsliti er gerð í svæfingu eða í ómstýrðri deyfingu samhliða með slakandi lyfi sem gefið er í æð. Að lokinni aðgerð færðu að jafna þig á vöknunardeildinni í 1-2 klst. Eða þar til þú treystir þér og svæfingalæknir gefur leyfi til að þú farið heim. Einhver verður að sækja þig að aðgerð lokinni. Sjúklingar teljast ekki ökuhæfir fyrr en daginn eftir. Ráðlegt er að sjúklingar dvelji ekki einir fyrst eftir heimkomu.
Mataræði: Það má borða allan venjulegan mat, en gott er að borða trefjaríkan mat (hveitiklíð, grænmeti og ávextir) og drekka vel til að halda hægðum mjúkum og forðast þannig hægðatregðu. Hægðatregða eykur líkur á að viðgerðin gefi sig við rembing eftir aðgerð.
Umbúðir: Vatnsheldar umbúðir eru settar yfir sárið. Þú getur farið í sturtu daginn eftir aðgerðina .
Verkir: Fyrstu dagana má búast við óþægindum í aðgerðarsvæðinu. Ráðlegt er að nota verkjalyf ef þess er þörf og fást þau án lyfseðils í apótekum (Paratabs/Paracetamól/Panodil 500 mg 2 tbl allt að 4 sinnum daglega) eða með lyfseðli (Parkódin 2 tbl x 2-4/dag).
Hreyfing/áreynsla: Öll hreyfing er góð en taktu því rólega fyrstu dagana. Varastu að reyna mikið á kviðvöðvana og forðastu að lyfta þungu í a.m.k. 4 vikur eftir aðgerð. Allur rembingur sem eykur þrýstinginn í kviðarholinu er óæskilegur fyrstu 4 – 8 vikurnar eftir aðgerð meðan kviðslitið og skurðsárin eru að gróa.
Fylgikvillar: Blæðing í skurðsárið getur átt sér stað. Við blæðingu kemur venjulega verkur og sárið bungar út og þegar frá líður kemur út mar í og fyrir neðan sárið. Sýkingar geta átt sér stað sem lýsa sér með óeðlilegum verkjum og hita og roða. Ef eistu bólgna hjá karlmönnum eftir nárakviðslitsaðgerð eða ef grunur er um blæðingu eða sýkingu skaltu hafa samband við lækni. Dofi er í fyrstu kringum skurðsárið og getur í einstaka tilfellum orðið viðvarandi. Ef viðgerðin heldur ekki kemur kviðslitið aftur og veldur útbungu og verk í aðgerðarsvæðinu.
Vinna: Fjarvistir frá vinnu eru einstaklingsbundnar, háðar umfangi aðgerðar og starfi hvers og eins. Ekki er óeðlilegt að vera frá vinnu tvær til fjórar vikur eftir aðgerðina og lengur í vissum tilfellum. Vottorð vegna vinnu eru gefin við endurkomu sem er að jafnaði eftir 1-2 vikur.
Árangur: Bestur árangur við kviðslitsaðgerð er ætíð við fyrstu aðgerð. Ef um enduraðgerð er að ræða er árangurinn síðri, með hærri endurkomutíðni. Við bestu mögulegu aðstæður má reikna með að endurkomutíðni kviðslita sé 3-15%.