Æðahnútaaðgerð – Hefðundin skurðaðgerð

Undirbúningur fyrir aðgerð:

 • Fasta 6 klst fyrir aðgerð (ekki borða fasta fæðu eða drekka vökva).
 • Verkjalyf: 1 klst fyrir aðgerðina á að taka verkjalyfið Panodil eða Paratabs 500 mg. Ef þú ert undir 70 kg þá 2 töflur en annars 3 töflur. 
 • Sturta kvöldið fyrir aðgerð og einnig að morgni aðgerðardags. Þvottur með venjulegri sápu. 
 • Ekki að raka ganglimi eða nára eða nota háreyðingakrem/vax viku fyrir aðgerðina. Ef fjarlægja þarf hár er það gert í upphafi aðgerðar af starfsfólki á skurðstofu. Ekki nota krem eða mýkjandi efni á húð ganglima á aðgerðardaginn.
 • Forðast notkun blóðþynnandi lyfja s.s. Asperín, kódimagnýl, hjartamagnýl ofl. og bólgueyðandi lyfja t.d. Ibúfen, Ibumetin, Indocit, Naprox, Voltaren, Vóstar  5-7 daga fyrir aðgerðina. Þeir sem nota lyfið Kóvar (Waran/Dicumarol) þurfa að öllu jöfnu að hætta töku þess 5 dögum fyrir aðgerð eða fá sérstakar leiðbeiningar þar um. 
 • Þeir sjúklingar sem taka blóðþrýstingslækkandi lyf og/eða hjartalyf er bent á að taka þau að morgni aðgerðardags með sopa af vatni. Notkun getnaðarvarnar- eða tíðahvarfapillu þarf ekki að hætta. Þeir sem hafa sykursýki og nota insúlin þurfa að ræða við svæfingalækninn nokkrum dögum fyrir aðgerðina (sími 590 9213).
 • Á Skurðstofunni eru læst hólf fyrir verðmæti/síma ofl. Skurðstofan ehf ábyrgist ekki tap eða mögulegan skaða á persónulegum munum. Notkun á snjallsímum á vöknun er óheimil. Öll upptaka/dreifing á hljóð og myndefni af skurðstofu sömuleiðis.
 • Við komu á skurðstofuna hittir þú skurð- og svæfingalækni. Þú færðu slopp til að fara í og einnota nærbuxur. Teiknað er á fætur og þeir ómaðir. Allir sjúklingar verða að undirrita  upplýst samþykki.
 • Ef þú hefur þekkt ofnæmi fyrir lyfjum, plástri, joði ofl. er nauðsynlegt að það komi fram fyrir aðgerðina.
 • Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) greiða fyrir aðgerðina að mestu fyrir þá sem sjúkratryggðir eru á Íslandi. Greiðsla innheimtist fyrir aðgerðina. Greiða má með greiðslu- eða kreditkorti en ekki seðlum. 

  Eftir aðgerðina: Aðgerðin er er gerð í þandeyfingu. Þetta er sérstök deyfingaaðferð (e. tumescent deyfing) og fer þannig fram að með hárfínni nál er aðgerðarsvæðið deyft með kældri deyfingarlausn. Eina sem sjúklingar finna fyrir eru stungur og þrýstingstilfinning. Æðagreinar eru fjarlægðar gegnum nálarstungugöt. Aðgerðirnar eru gerðar með slæfingarlyfjum í æð svipað og við magaspeglun. Að lokinni aðgerð færðu að jafna þig á vöknun í ½-1 klst eða þar til þú ert ferðarfær. Sjúklingar teljast ekki ökufærir fyrr en daginn eftir. Ráðlegt er að sjúklingar dvelji ekki einir fyrst eftir heimkomu. Verkir: Fyrstu dagana má búast við minniháttar óþægindum í aðgerðarsvæðinu. Ráðlegt er að nota verkjalyf ef þess er þörf og fást þau án lyfseðils í apótekum (Paratabs/Panodil 500 mg, 2 tbl  allt að fjórum sinnum/dag) eða Parkodin gegn lyfseðli. Umbúðir: Við aðgerðina er fóturinn settur í teygjusokk. Þar utan á er teygjubindi sem má fjarlægja eftir 48 klst og fleygja. Þá má einnig fjarlægja teygjusokkinn og fara í sturtu en fara svo í hann á ný. Umbúðir undir teygjusokknum má fjarlægja samtímis fyrir sturtuna og fleygja. Notast á við sokkinn í framhaldinu í 5-7 sólahringa eftir aðgerð. Dag og nótt. Sokkurinn minnkar verki, mar og kemur í veg fyrir bjúgsöfnun. Kláði getur fylgt langvarandi notkun umbúða. Sumum gagnast að taka algeng ofnæmislyf sem fást án lyfseðils til að stilla kláðann. Síðan er ráðlegt er að sjúklingar kaupi sér “flugsokka” í réttri stærð í apóteki, sem ná upp að hné, og noti frá 5-7. degi eftir aðgerð á dagtíma í 1-3 vikur eftir það.  Hreyfing: Hafa almennt hægt um þig fyrstu 1-2 dagana eftir aðgerð. En farið reglulegar göngur og gerið fótaæfingar með því að hreyfa upp og niður um ökklaliðinn; “pumpuæfingar”. Þetta kemur í veg fyrir bjúgsöfnun á fætinum og minnkar verki. Sund og leikfimi eftir 10 daga eða þegar stungusár eru alveg lokuð eða gróin. Fylgikvillar: Eðlilegt er að húðin verði marin á stungustað. Einnig að þykkildi/strengur myndist undir húðinni fyrst í stað þar sem æðahnútarnir voru. Nota má Hirudoid krem eftir 5-7 daga sem fæst án lyfseðils til að minnka marið. Það er borið þunnt á marin svæði 2-3 á dag þar til mar hverfur. Blæðingar og sýkingar geta átt sér stað. Við sýkingu er óeðlilega mikill verkur í sárum og e.t.v. hiti. Við blæðingu eða grun um sýkingu skaltu hafa samband við lækni. Einstaka sinnum geta orðið langvarandi litabreytingar á húðinni (e. staining) og einnig tilfinningaskerðing/tap í húð. Blóðtappa eftir aðgerð hefur verið lýst en er afar fátítt. Í lok aðgerðarinnar fá allir blóðþynnandi sprautu sem forvörn. Umbúðir geta valdið óþoli eða í versta falli blöðrumyndun. Í slíkum tilfellum er ráðlegt að fjarlægja þær eða breyta um staðsetningu. Iðulega er síðar sprautað í minni æðahnúta að æðaslit. Til þessa er notað lyfið polidocanol (Aetoxysclerol) sem vökvi eða froða. Lyfið lokar þessum æðum. Langtímaárangur þessarar meðferðar er einstaklingsbundin en aldrei alger og iðulega þarf að endurtaka sprautumeðferðina. Árangur: Langtímaárangur aðgerðarinnar byggir m.a. umfangi og eðli sjúkdómsins og nákvæmu mati fyrir aðgerð með skoðun og ómskoðun. Reynt er að gera varanlega aðgerð en hafa ber í huga um er að ræða krónískan sjúkdóm og að grunn orsök hans er lítt þekkt og því aldrei hægt að útiloka að æðahnútar geti myndast á ný eða á öðrum stöðum með tíð og tíma. Endurkoma æðahnúta eftir bestu mögulegu meðferð er algeng þegar til lengri tíma er litið. Vinna: Fjarvistir frá vinnu eru einstaklingsbundnar, háðar umfangi aðgerðar og starfi hvers og eins. Ekki er óeðlilegt að vera frá vinnu nokkra daga eftir aðgerðina og lengur í undantekningartilfellum. Vottorð vegna vinnu eru gefin út við endurkomu.

Stefán E. Matthíasson dr. med.
Greining og meðferð skurð- og æðasjúkdóma