Kviðslitsaðgerð

Undirbúningur – Kviðslit:

  • Fasta 6 klst. fyrir aðgerð. Vanalega frá miðnætti fyrir aðgerð. (Ekki borða fasta fæðu eða drekka vökva)
  • Sturta kvöldið fyrir aðgerð og  einnig að morgni aðgerðardags. Þvottur með venjulegri sápu. 
  • Verkjalyf: 1 klst fyrir aðgerðina áttu að taka verkjalyfið Panodil, Parasetamol eða Paratabs 500 mg. Ef þú ert undir 70 kg í þyngd þá 2 töflur en annars 3 töflur.
  • Af sýkingarvarástæðum á ekki raka aðgerðarsvæðið eða nota háreyðingakrem/vax á aðgerðarsvæðið viku fyrir aðgerðina. Ef raka þarf hár af aðgerðarsvæði er það gert í upphafi aðgerðar af starfsfólki á skurðstofu.
  • Engin krem eða mýkjandi efni á húð á að a við aðgerðarsvæðið á aðgerðardaginn.
  • Forðast notkun blóðþynnandi lyfja s.s. acetylsalesylsýru (Asperín, Kódimagnýl, Hjartamagnýl ofl.) og allra bólgueyðandi lyfja (t.d. Ibúfen, Ibumetin, Naprox, Voltaren, Vóstar) a.m.k. 5 daga fyrir aðgerðina. Lýsi og Omega fitusýrur eru blóðþynnandi og ber að hætta neyslu þeirra viku fyrir aðgerð. Þeir sem nota lyfið Warfarin (Kóvar/Waran/Dicumarol) þurfa að hætta töku þess 6 dögum fyrir aðgerð eða fá sérstakar leiðbeiningar þar um. Sama gildir um lyfin; Grepid, Clopidrogel og Plavix sem eru blóðþynnandi. Þeir sjúklingar sem taka blóðþrýstingslækkandi lyf og/eða hjartalyf er bent á að taka þau að morgni aðgerðardags með sopa af vatni. Notkun getnaðarvarnareða tíðahvarfapillu þarf ekki að hætta. Þeir sem hafa sykursýki og nota insúlin þurfa að ræða við svæfingalækninn nokkrum dögum fyrir aðgerðina (sími 590 9213).
  • Á Skurðstofunni eru læst hólf fyrir verðmæti/síma ofl. Skurðstofan ehf ábyrgist ekki tap eða mögulegan skaða á persónulegum munum. Notkun á snjallsímum á vöknun er óheimil. Öll upptaka/dreifing á hljóð og myndefni af skurðstofu sömuleiðis.
  • Við komu á skurðstofuna hittir þú skurð- og svæfingalækni sem skýra megin þætti aðgerðarinnar og ráðleggja um eftirmeðferð. Þú færðu slopp og einnota nærbuxur til að fara í og teiknað er á húð. Allir sjúklingar verða að undirrita  upplýst samþykki fyrir aðgerðina. 
  • Ef þú hefur þekkt ofnæmi fyrir lyfjum, plástri, joði ofl. er nauðsynlegt að það komi fram fyrir aðgerðina.
  • Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) greiða fyrir aðgerðina að mestu fyrir þá sem sjúkratryggðir eru á Íslandi. Greiðsla innheimtist fyrir aðgerðina. Greiða má með greiðslu- eða kreditkorti en ekki seðlum. 

Eftir aðgerðina: viðgerð á kviðsliti er gerð í svæfingu eða í ómstýrðri deyfingu samhliða með slakandi lyfi sem gefið er í æð. Að lokinni aðgerð færðu að jafna þig á vöknunardeildinni í 1-2 klst. Eða þar til þú treystir þér og svæfingalæknir gefur leyfi til að þú farið heim. Einhver verður að sækja þig að aðgerð lokinni. Sjúklingar teljast ekki ökuhæfir fyrr en daginn eftir. Ráðlegt er að sjúklingar dvelji ekki einir fyrst eftir heimkomu. 

Mataræði: Það má borða allan venjulegan mat, en gott er að borða trefjaríkan mat (hveitiklíð, grænmeti og ávextir) og drekka vel til að halda hægðum mjúkum og forðast þannig hægðatregðu. Hægðatregða eykur líkur á að viðgerðin gefi sig við rembing eftir aðgerð.

Umbúðir:  Vatnsheldar umbúðir eru settar yfir sárið. Þú getur farið í sturtu daginn eftir aðgerðina .

Verkir: Fyrstu dagana má búast við óþægindum í aðgerðarsvæðinu. Ráðlegt er að nota verkjalyf ef þess er þörf og fást þau án lyfseðils í apótekum (Paratabs/Paracetamól/Panodil 500 mg 2 tbl allt að 4 sinnum daglega) eða með lyfseðli (Parkódin 2 tbl x 2-4/dag). 

Hreyfing/áreynsla: Öll hreyfing er góð en taktu því rólega fyrstu dagana. Varastu að reyna mikið á kviðvöðvana og forðastu að lyfta þungu í a.m.k. 4 vikur eftir aðgerð. Allur rembingur sem eykur þrýstinginn í kviðarholinu er óæskilegur fyrstu 4 – 8 vikurnar eftir aðgerð meðan kviðslitið og skurðsárin eru að gróa.

Fylgikvillar: Blæðing í skurðsárið getur átt sér stað. Við blæðingu kemur venjulega verkur og sárið bungar út og þegar frá líður kemur út mar í og fyrir neðan sárið. Sýkingar geta átt sér stað sem lýsa sér með óeðlilegum verkjum og hita og roða. Ef eistu bólgna hjá karlmönnum eftir nárakviðslitsaðgerð eða ef grunur er um blæðingu eða sýkingu skaltu hafa samband við lækni. Dofi er í fyrstu kringum skurðsárið og getur í einstaka tilfellum orðið viðvarandi. Ef viðgerðin heldur ekki kemur kviðslitið aftur og veldur útbungu og verk í aðgerðarsvæðinu.

Vinna: Fjarvistir frá vinnu eru einstaklingsbundnar, háðar umfangi aðgerðar og starfi hvers og eins. Ekki er óeðlilegt að vera frá vinnu  tvær til fjórar vikur eftir aðgerðina og lengur í vissum tilfellum. Vottorð vegna vinnu eru gefin við endurkomu sem er að jafnaði eftir 1-2 vikur.

Árangur: Bestur árangur við kviðslitsaðgerð er ætíð við fyrstu aðgerð. Ef um enduraðgerð er að ræða er árangurinn síðri, með hærri endurkomutíðni. Við bestu mögulegu aðstæður má reikna með að endurkomutíðni kviðslita  sé 3-15%.

Stefán E. Matthíasson dr. med.
Greining og meðferð skurð- og æðasjúkdóma